Innlent

Framkvæmdum lokið og heitu vatni hleypt aftur á

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Meðal annars var skrúfað fyrir heita vatnið í Hafnarfirði.
Meðal annars var skrúfað fyrir heita vatnið í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm

Verið er að hleypa heitu vatni aftur á þau hverfi höfuðborgarsvæðisins sem hafa verið heitavatnslaus frá því í nótt. Þetta kemur fram á vef Veitna.

Þar segir að framkvæmdir sem ollu því að loka þurfti fyrir heitt vatn í nokkrum hverfum hafi gengið vonum framar og hafi lokið átta tímum fyrr en áætlað var.

„Ráðgert var að hefja áhleypingu um kl. 02:00 í nótt og að allir væru komnir með heitt vatn kl. 9 í fyrramálið. Nú lítur út fyrir að sú verði raunin fyrir miðnætti. Um er að ræða eina umfangsmestu hitaveitulokun á vegum Veitna,“ segir í tilkynningu Veitna.

Gera má ráð fyrir að það taki nokkrar klukkustundir að ná upp fullum þrýstingi í hitaveitukerfinu. Það gerist á mismunandi tíma eftir hverfum. Ráðgert er að Hafnarfjörður verði síðastur til þess að fá heita vatnið aftur á fullum þrýstingi.

Þá þakka Veitur almenningi, fyrirtækjum og stofnunum fyrir að sýna framkvæmdinni, og heitavatnsleysinu sem henni fylgdi, skilning. Framkvæmdin hafi verið liður í að tryggja ábyrgari nýtingu og sjálfbærni jarðhita í Reykjavík og Mosfellsbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×