Fótbolti

Segja Mane vilja endur­nýja kynnin við Koeman

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sadio Mane í leik með Liverpool á síðustu leiktíð en hann var einn besti leikmaður liðsins.
Sadio Mane í leik með Liverpool á síðustu leiktíð en hann var einn besti leikmaður liðsins. vísir/getty

Sadio Mane er tilbúinn að endurnýja kynnin við Ronald Koeman, stjóra Barcelona, hjá spænska stórliðinu en Koeman og Mane unnu saman hjá Southampton.

Spænski miðillinn Mundo Deportivo greinir frá þessu og segir að Senegalinn horfi í það að vinna einstaklingsverðlaun. Það muni frekar takast hjá Barcelona en Liverpool.

Mane hefur verið hluti af hinum ódauðlega tríói í fremstu víglínu Liverpool; Roberto Firmino, Mohamed Salah og Mane sjálfur. Þeir hafa verið í lykilhlutverkum síðustu tvö tímabil er liðið hefur unnið Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina.

Koeman og Mane unnu saman í tvö ár hjá Southampton. Þar skoraði Mane 25 í 75 leikjum áður en hann færði sig yfir til Liverpool en Senegalinn er sagður ekki fá þá viðurkenningu á Englandi sem hann á skilið.

Spænska dagblaðið segir frá því að Mane telji að sama hvað hann gerir hjá Liverpool munu þeir Jordan Henderson eða Mo Salah fá það hrós, sem Mane finnst að hann sjálfur eigi skilið.

Barcelona gæti þurft að punga út um 120 milljónum punda ætli þeir að fá Mane og verður það að teljast ólíklegt eftir að liðið keypti Ousmane Dembele, Antoine Griezmann og Philippe Coutinho á fúlgur fjár síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×