Enski boltinn

Messi gæti þurft að sleppa öllu tímabilinu til að losna frá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framtíð Lionel Messi  er enn í uppnámi en leikmaðurinn vill alls ekki vera áfram hjá Barcelona.
Framtíð Lionel Messi  er enn í uppnámi en leikmaðurinn vill alls ekki vera áfram hjá Barcelona. EPA-EFE/Manu Fernandez / POOL

Barcelona heldur fast í Lionel Messi og forráðamenn félagsins ætla ekki að gefa þumlung eftir í baráttunni um lokatímabil argentínska snillingsins hjá félaginu.

Lykilatriðið í öllu málinu er að Lionel Messi annars vegar og forráðamenn Barcelona hins vegar leggja sitt hvort túlkunina í samninginn sem Messi skrifaði undir árið 2017.

ESPN hefur fjallað mikið um málið og menn þar á bæ eru greinilega með mikil sambönd þegar kemur að Barcelona og Lionel Messi.

Túlkun Barcelona á samningi Messi er samkvæmt heimildum ESPN þannig að Messi gæti hætt hjá félaginu en það þýddi að hann yrði að gefa eftir öll launin sín og mætti ekki semja við annað félag fyrr en næsta sumar.

Enginn fengi því að sjá Lionel Messi að spila á tímabilinu 2020-21 en hinn 33 ára gamli Messi á ekki mörg ár eftir og tjónið því mikið fyrir fótboltann.

Samningur Lionel Messi rennur út sumarið 2021 en hann og Barcelona deila um hvort að Messi geti sleppt þessu síðasta tímabili. Barcelona segir að uppsagnarákvæðið sé enn í gildi þar sem þyrfti að borga 700 milljónir evra fyrir samninginn.

Messi og lögfræðingar hans segja að þetta ákvæði sé ekki í gildi á þessu síðasta ári samningsins.

Kórónuveiran blandast að sjálfsögðu inn i þetta mál því Messi varð samkvæmt samningnum að ákveða framhaldið í síðasta lagi í júní en tímabilið dróst á langinn og leiktíðin endaði ekki fyrr en í ágúst.

Lögfræðingar Lionel Messi halda því fram að hann sé búinn að segja upp samningnum sínum og þess vegna sé hann ekki mættur til Barcelona eins og aðrir leikmenn liðsins. Barcelona er aftur á móti byrjað að sekta hann fyrir skrópið.

Barcelona vill alls ekki missa Lionel Messi og samkvæmt heimildum ESPN er nýr tveggja ára samningur enn á borðinu. Þar myndi Messiað mestu halda sínum launum sem eru í kringum hundrað milljónir evra á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×