Erlent

Ráðist á fólk með egg­vopni í mið­borg Birming­ham

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynnt var um fyrstu árásina skömmu eftir miðnætti að staðartíma. Myndin er úr safni.
Tilkynnt var um fyrstu árásina skömmu eftir miðnætti að staðartíma. Myndin er úr safni. GEtty

Lögregla í Birmingham í Englandi var kölluð út skömmu eftir miðnætti þegar tilkynnt var um að ráðist hafi verið á fólk með eggvopni í miðborginni.

Breskir fjölmiðlar hafa eftir lögreglu að ekki sé ljóst um fjölda fórnarlamba á þessu stigi eða þá alvarleika sára þeirra. Viðbúnaður sé mikill og er málið flokkað hjá lögreglu á þann veg að almenning sé talin stafa hætta af.

Lögregla girti af svæði á Hurst Street og Bromsgrove Street, þar sem mikið er um skemmtistaði.

Borgarstjórinn Andy Street segir að svo virðist sem að árásirnar tengist en að ekki liggi fyrir um ástæður árásanna.

Lögregla í Birmingham mun halda blaðamannafund þegar líða tekur á morguninn þar sem vonast er til að hægt verði að varpa skýrara ljósi á málsatvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×