Íslenski boltinn

Ágúst Eð­vald: Maður hlýtur að hafa gert eitt­hvað rétt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ágúst Eðvald hefur leikið sinn síðasta leik með Víking, í bili allavega.
Ágúst Eðvald hefur leikið sinn síðasta leik með Víking, í bili allavega. Vísir/Bára

Ágúst Eðvald Hlynsson mætti í viðtal eftir 2-2 jafntefli Víkings og KA í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu. Þetta var síðasti leikur Ágústs Eðvalds með Víkingum en hann er á leið til danska úrvalsdeildarfélagsins Horsens.

Víkingar hafa nú – eins og hefur margoft komið fram – ekki unnið leik síðan 19. júlí.

„Bara drullusvekktur, þetta er orðið helvíti þreytt ég verð að viðurkenna það en það eru fjórir leikir eftir og vonandi förum við að vinna einhverja leiki,“ sagði Ágúst Eðvald að leik loknum en reiknar hann með að spila með Víkingum í þessum fjórum leikjum?

„Nei ég býst ekki við því ef ég er alveg hreinskilinn.“

„Kannski ekki alveg klappað og klárt en helvíti líklegt eins og staðan er í dag,“ sagði Ágúst Eðvald aðspurður hvort félagaskiptin væru frágengin.

„Ekki mér þannig en þetta hlýtur að setjast einhverstaðar á bakvið í hausnum. Að þegar þú færð alltaf á þig fyrsta markið í leiknum þá verður þetta sjálfkrafa mjög erfitt. Þurfa alltaf að gíra sig upp í að ná jöfnunarmarkinu og síðan eltast við sigurmarkið, þetta er búið að vera sagan okkar í sumar finnst mér,“ var svarið er hann var spurður hvort gengi Víkinga væri farið að setjast á sálina hjá mönnum.

Ágúst Eðvald er annar leikmaðurinn sem Víkingar selja erlendis á skömmum tíma. Þeir hljóta því að hafa gert eitthvað rétt í sumar?

„Greinilega, fyrst maður er á leiðinni út. Þá hlýtur maður að hafa gert eitthvað rétt í sumar en samt leiðinlegt. Markmiðin voru há fyrir tímabilið og leiðinlegt að hafa ekki náð að fylgja því alveg eftir.“

„Stöngin út sumar hjá okkur. Erum búnir að spila virkilega fínt í flestum leikjum en eins og ég segi, við erum alltaf að fá á okkur fyrsta markið og þá verður þetta ógeðslega erfitt,“ sagði Águst Eðvald Hlynsson, verðandi leikmaður Horsens í Danmörku, að lokum.


Tengdar fréttir

Kveðjuleikur hjá Ágústi Eðvald í dag

Ágúst Eðvald Hlynsson er á leiðinni til Horsens í Danmörku, ef marka má Guðmund Benediktsson, einn fremsta sparkspeking þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×