Kemar Roofe var að gera góða hluti með Rangers í Evrópudeildinni í gærkvöldi en það muna einhverjir eftir því þegar hann spilaði í Pepsi deild karla eitt sumarið.
Kemar Roofe innsiglaði 2-0 sigur Rangers á belgíska félaginu Standard Liege í gær. Hann kom inn á sem varamaður á 74. mínútu og skoraði markið á annarri mínútu í uppbótatíma.
Kemar Roofe vann boltann á eigin vallarhelmingi eftir fast leikatriði hjá Standard Liege, lék á nokkra varnarmenn Belgana og skoraði yfir markvörðinn frá miðlínunni. Markið þótti minna á frægt mark David Beckham fyrir Manchester United. Roofe var 49,9 metrum frá markinu þegar hann skaut á markið.
54.6 - Kemar Roofe's goal for Rangers against Standard Liège was scored from a distance of 54.6 yards, the furthest distance ever for a goal scored in the UEFA Europa League. Spectacular. #UEL pic.twitter.com/71qN1QUtdq
— OptaJoe (@OptaJoe) October 22, 2020
Kemar Roofe er 27 ára gamall og á sínu fyrsta tímabili hjá Steven Gerrard hjá Rangers. Skoska félagið keypti hann frá Anderlecht í ágúst síðastliðnum. Hann gerði fína hluti hjá Leeds á árunum 2016 til 2019.
Roofe var aftur á móti leikmaður West Bromwich Albion sumarið 2011 þegar hann kom á láni til Víkinga í Pepsi deildinni. Roofe spilaði tvo deildarleiki og einn bikarleik með Víkingum og skoraði í bikarleik á móti KV á gervigrasvellinum í Vesturbænum.
Hér fyrir neðan má sjá þetta sérstaka mark hjá Kemar Roofe frá því í gærkvöldi.
Það er líka gaman að rifja upp bikarmarkið hans Kemars Roofe fyrir Vikinga í 32 liða úrslitum Valitorsbikarsins sumarið 2011.