Fótbolti

„Það bjargar ekki pabba mínum en þetta gæti bjargað börnunum mínum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Sigurðsson býr sig undir að skalla boltann í leik með Everton í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi Sigurðsson býr sig undir að skalla boltann í leik með Everton í ensku úrvalsdeildinni. Getty/ Visionhaus

Margir vilja takmarka það hversu oft fótboltafólk skallar boltann á fótboltaæfingum til að sporna við mögulegum eftirmálum þess sífelldu skalla seinna á ævi fólks.

Mikil umræða er um það í Bretlandi þessa dagana hvaða áhrif þess að skalla mikið boltann hafi á heila fótboltafólks í framtíðinni.

Ættingjar Nobby Stiles, sem var í heimsmeistaraliði Englendinga 1966 og lést á dögunum, gáfu það frá sér við lát föður síns að fótboltaheimurinn þyrfti að taka á því hversu mikil er um heilabilun hjá gömlum fótboltamönnum. Þau töluðum um að þetta væri hneyksli fyrir fótboltann.

Aðstandendur Nobby Stiles gagnrýndu líka leikmannasamtökin fyrir að sýna leikmönnum ekki mikinn stuðnings.

Nobby Stiles lést í október 78 ára gamall. Hann var með heilabilun og krabbamein. Stiles er fimmti leikmaðurinn úr heimsmeistaraliði Englendinga sem greindist með heilabilun.

Rannsóknir sýna að gamlir fótboltamenn eru meira en þrisvar sinnum líklegri til að deyja úr heilabilun heldur en hinn almenni einstaklingur.

Einn af þeim sem blandaði sér í umræðuna var Chris Sutton, fyrrum leikmaður í ensku úrvalsdeildinni sem skallaði ófáa boltana á sínum ferli. Sutton ræddi málið á BBC Radio 5 Live eins og sjá má hér fyrir neðan.

„Við þurfum að reyna að minnka áhættuna. Ég talaði við Dr Willie Stewart sem hefur stundað þessar rannsóknir í Skotlandi og þar kemur fram að þú ert 3,5 sinnum líklegri til að fá heilabilun sem gamall fótboltamaður,“ sagði Chris Sutton sem skoraði yfir 150 mörk í enska boltanum á ferlinum þar af var hann markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 1997-98 með þeim Dion Dublin og Michael Owen.

Chris Sutton skoraði stóran hluta marka sinna með skalla en hann var mjög öflugur í loftinu.

„Hann talar um að lágmarka það hversu oft fótboltamenn skalla boltann á æfingum. Við erum að tala um hámark tuttugu skallar á æfingu og lágmark 48 tímar á milli æfinga. Hverjir eru ókostirnir við þessar tillögur? Þeir eru engir og af hverju setjum við ekki þessar reglur,“ spurði Chris Sutton sem nefndi þau viðmið sem eru í gildi í Bretlandi að börn yngri en ellefu ára skalli ekki boltann.

„Hvað gerist þegar þessi börn verða tólf, þrettán, fjórtán, fimmtán og sextán ára? Hvernig ætlum við að taka á þessu hjá þeim? Þetta eru einfaldar leiðbeiningar og þetta eru einfaldar tillögur sem við ættum að taka upp,“ sagði Sutton.

„Það bjargar ekki pabba mínum og ég veit ekki hvort ég fái þetta en þetta gæti bjargað börnunum mínum og þetta gæti bjargað kynslóðum framtíðarinnar. Það er einfaldlega verið að minnka áhættuna,“ sagði Sutton en það má heyra alla klippuna hér fyrir ofan.

Gary Lineker hefur tekið undir þetta eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×