Erlent

Bóluefni AstraZeneca fær markaðsleyfi í Bretlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bóluefni AstraZeneca hefur fengið markaðsleyfi í Bretlandi.
Bóluefni AstraZeneca hefur fengið markaðsleyfi í Bretlandi. Getty/Konstantinos Zilos

Bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskóla gegn Covid-19 hefur fengið markaðsleyfi í Bretlandi. Þar af leiðandi er hægt að hefja bólusetningar með efninu í landinu.

Áður hafði bóluefni Pfizer og BioNTech fengið markaðsleyfi í landinu og eru bólusetningar hafnar með því efni líkt og hér á landi, í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Hins vegar eru vonir bundnar við að nú verði hægt að gefa verulega í varðandi bólusetningar í Bretlandi þar sem meðal annars er auðveldara að geyma og flytja efni AstraZeneca heldur en efni Pfizer.

Til að mynda þarf ekki að geyma bóluefni AstraZeneca við tuga gráðu frost líkt og efni Pfizer heldur er hægt að geyma það við sama hitastig og er í venjulegum ísskáp.

Dreifing og flutningur bóluefnisins til heimilislækna og hjúkrunarheimila ætti því að ganga fljótt fyrir sig að því er segir í frétt Guardian.

Markaðsleyfi EMA forsenda markaðsleyfis á Íslandi

Bresk stjórnvöld hafa pantað 100 milljónir skammta af bóluefni AstraZeneca og er talið að fjórar milljónir skammta verði aðgengilegar á næstu dögum.

Áhersla verður lögð á að bólusetja eldra fólk og viðkvæma hópa í samræmi við ráðleggingar breskra sóttvarnayfirvalda um forgangshópa.

Bretland var fyrsta landið í heiminum til þess að veita bóluefni Pfizer markaðsleyfi í byrjun þessa mánaðar og er nú fyrsta landið til að veita bóluefni AstraZeneca samskonar leyfi.

Líkt og með bóluefni Pfizer er markaðsleyfi Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) forsenda þess að bóluefni AstraZeneca fái markaðsleyfi hér á landi.

Slíkt leyfi EMA liggur ekki fyrir og var raunar greint frá því í gær að ólíklegt væri að EMA myndi samþykkja markaðsleyfi fyrir bóluefnið í janúar á næsta ári.

Það er því óvíst hvenær bóluefni AstraZeneca kemur hingað til lands en fram hefur komið að fyrirtækið stefni á að byrja að afhenda skammta í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Samkvæmt upplýsingum um bólusetningar á covid.is hafa íslensk stjórnvöld tryggt sér um 230 þúsund skammta af bóluefni AstraZeneca sem dugar fyrir um 115 þúsund einstaklinga.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×