Enski boltinn

Liverpool og Man. Utd meðal liða sem vilja henda Man. City út úr Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola er örugglega mjög ósáttur með það að mörg lið í ensku úrvalsdeildinni hafi nú sameinast um það að pressa á það að  Manchester City verði hent út úr Meistaradeildinni.
Pep Guardiola er örugglega mjög ósáttur með það að mörg lið í ensku úrvalsdeildinni hafi nú sameinast um það að pressa á það að  Manchester City verði hent út úr Meistaradeildinni. Getty/James Baylis

Liverpool og Manchester United eru sögð vera meðal þeirra átta liða sem vilja koma veg fyrir þátttöku Manchester City í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Knattspyrnusamband Evrópu dæmdi Manchester City á dögunum í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum eftir að félagið braut reglur UEFA um rekstur fótboltafélaga.

Manchester City áfrýjaði dómnum strax til Alþjóðaíþróttadómstólsins, Court of Arbitration for Sport, en það mun verði einhver bið á því að það verði tekið fyrir vegna ástandsins út af útbreiðslu kórónuveirunnar.

Daily Mail hefur nú heimildir fyrir því að átta af tíu efstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar hafa sent beiðni til Alþjóðaíþróttadómstólsins um að Manchester City fái ekki að taka þátt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð ef að það dregst eitthvað að taka málið fyrir hjá dómstólnum.

Af tíu efstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar í dag eru það aðeins Manchester City og Sheffield United sem skrifuðu ekki undir þessa beiðni um að banna Manchester City frá þáttöku í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Það þýðir að meðal félaga sem vilja henda Manchester City út úr Meistaradeildinni eru erkifjendur þeirra í Liverpool, Manchester United, Chelsea og Arsenal.

Öll þessu félög sendu bréf til sama lögfræðifyrirtækis sem sendi sína beiðni inn fyrir hönd allra átta félaganna.

Í bréfinu mótmæla félögin því harðlega að Manchester City fái að taka þátt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð verði ekki búið að taka fyrir áfrýjun þeirra hjá CAS dómstólnum.

Í frétt Daily Mail kemur einnig fram að Manchester City trúi því að ákveðnir aðilir hafa farið fyrir þessu máli gegn þeim og þessar fréttir muni aðeins styðja þá kenningu.

Það er hins vegar skoðun þessara félaga sem um ræðir að nóg sé komið og að Manchester City hafi alltof lengi komist upp með það að virða ekki reglur UEFA um rekstur félaga.

Félögin hafi nú áhyggjur af því að það muni taka langan tíma að klára málið fyrir Alþjóðaíþróttadómstólnum og á meðan geti Manchester City tekið þátt í Meistaradeildinni á kostnað einhvers þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×