Skimun við nýju kórónuveirunni hjá Íslenskri erfðagreiningu mun halda áfram af fullum krafti eftir að staðfest var að nýir sýnitökupinnar eru nothæfir. Pinnarnir koma frá fyrirtækinu Össuri en fyrstu tilraunir í gær gáfu í skyn að ekki væri hægt að nota pinnana. Þær prófanir voru þó gallaðar.
Í tilkynningu á Facebooksíðu ÍE segir að prófanirnar hafi verið endurteknar í dag og að pinnarnir 20 þúsund muni leysa úr vandanum sem hafði myndast vegna skorts.
Þetta þýðir að hægt verður að fara í mun víðtækari sýnatökur en nú er gert.
Sjá einnig: Bjartsýnn á pinnana frá Össuri en afþakkar bresku heimaprófin
Búið er að staðfesta 802 smit af Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur, hér á landi og eru 720 í einangrun. Sautján eru á sjúkrahúsi og þar af þrír á gjörgæslu. Þá hafa 82 jafnað sig af sjúkdómnum og tæplega tíu þúsund manns eru í sóttkví.