Erlent

Stríð út af Wikileaks í netheimum

Í Pakistan var í gær efnt til mótmæla þar sem fáni Bandaríkjanna var brenndur til stuðnings Wikileaks og Julian Assange. nordicphotos/AFP
Í Pakistan var í gær efnt til mótmæla þar sem fáni Bandaríkjanna var brenndur til stuðnings Wikileaks og Julian Assange. nordicphotos/AFP
Greiðslumiðlunarsíðan Paypal lét í gær undan árásum frá netþrjótum og losaði um fé sem komið var inn á reikning Wiki­leaks. Ekki verður þó hægt að greiða meira inn á reikninginn.

Hópur netþrjóta sem nefnir sig Anonymous hefur jafnt og þétt hert árásir sínar á fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga sem hafa gagnrýnt, unnið gegn eða lokað á þjónustu Wikileaks.

Meðal annars hafa síður kortafyrirtækjanna Visa og Mastercard legið niðri vegna árásanna og vefur saksóknaraembættis í Svíþjóð, sem krefst framsal Julians Assange frá Bretlandi, lá einnig niðri um hríð.

Þá varð Sarah Palin, fyrrverandi ríkisstjóri Alaska og einn helsti forsprakki teboðshreyfingar­innar í Bandaríkjunum, fyrir árás nafnlausu netþrjótanna, sem lokuðu vefsíðu hennar eftir að hún hafði gagnrýnt Assange.

Sjálf brást hún ókvæða við: „Þetta er það sem gerist þegar þú notar fyrsta viðaukann og talar gegn þessum sjúklegu, óamerísku njósnatilburðum hans.“

Árásir voru einnig gerðar á samskiptasíðuna Twitter eftir að lokað var á Wikileaks, en samskiptasíðan Facebook úthýsti hins vegar netþrjótunum og lokaði síðu þeirra. Netþrjótarnir segjast vera fjölmargir og nefna aðgerðir sínar Operation Payback, eins konar endurgjald fyrir þá framkomu sem Wikileaks hefur orðið fyrir.

Stuðningsfólk Wikileaks hefur fullyrt að þrýstingur og jafnvel hótanir frá Bandaríkjastjórn liggi að baki aðgerðum fyrirtækjanna gegn Wikileaks.

Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í Genf í gær sagðist Navi Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, hafa verulegar áhyggjur af fregnum um að kortafyrirtæki hefðu látið undan þrýstingi og hætt að taka við greiðslum til Wikileaks.

Greiðslumiðlunarsíðan PayPal viðurkenndi í gær að hafa hætt að þjónusta Wikileaks vegna þrýstings frá Bandaríkjastjórn. Ákvörðunin hafi verið tekin eftir að bréf barst frá Bandaríkjastjórn, þar sem fullyrt var að starfsemi Wiki­leaks bryti í bága við bandarísk lög. Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna neitaði því hins vegar að slíkt bréf hafi verið skrifað. Þá dró talsmaður PayPal í land og sagði starfsfólk PayPal hafa tekið ákvörðunina með hliðsjón af almennri afstöðu Bandaríkjastjórnar.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×