Erlent

Samþykkja 15 dollara lágmarkslaun í LA

jón hákon halldórsson skrifar
Starfsmenn skyndibitastaða og heilbrigðisstarfsmenn í Los Angeles örkuðu út á götur í desember síðastliðnum til að krefjast bættra kjara.
Starfsmenn skyndibitastaða og heilbrigðisstarfsmenn í Los Angeles örkuðu út á götur í desember síðastliðnum til að krefjast bættra kjara. nordicphotos/afp
Los Angeles-borg í Bandaríkjunum hefur ákveðið að innleiða lágmarkslaun sem nema 15 dollurum, tæplega 2.000 íslenskum krónum, á klukkustund.

Greidd voru atkvæði um tillöguna í borgarstjórn og samþykktu 14 borgarfulltrúar tillöguna en einn greiddi atkvæði á móti. Breska fréttastofan BBC segir að Seattle og San Francisco hafi nú þegar samþykkt að tekin verði upp 15 dollara lágmarkslaun á næstu árum, fyrri borgin tekur þau upp 2017 en seinni borgin ári síðar.

„Los Angeles er núna orðin nýjasta og stærsta borgin sem styður verkamenn sem biðja ekki um neitt annað en að þeir fái sanngjörn og mannsæmandi laun,“ sagði Christine Owens, framkvæmdastjóri Vinnuréttindaverkefnisins, en það er hópur sem berst fyrir réttindum launafólks.

Gert er ráð fyrir að lög um 15 dollara lágmarkslaunin taki gildi í júlí 2020. Launin fara stighækkandi og munu verða 10,5 dollarar, tæplega 1.400 krónur, í júlí á næsta ári.

Verslunarrisinn Walmart tilkynnti í febrúar að fyrirtækið myndi hækka laun starfsmanna í versluninni. Þann 1. febrúar á næsta ári verða allir starfsmenn með að minnsta kosti 10 dali á tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×