Erlent

Heilsa sykursjúkra batnaði á 5:2 kúrnum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Konur sem tileinka sér 5:2 borða einungis 500 kaloríur á dag tvo daga vikunnar en karlar 600 kaloríur. Hina fimm dagana er mataræðið hefðbundið.
Konur sem tileinka sér 5:2 borða einungis 500 kaloríur á dag tvo daga vikunnar en karlar 600 kaloríur. Hina fimm dagana er mataræðið hefðbundið. NORDICPHOTOS/GETTY
Heilsa þeirra sem eru með fullorðinssykursýki batnar við 5:2 kúrinn. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Kerstin Brismar, prófessors við Karólínsku stofnunina í Svíþjóð. Konur sem tileinka sér kúrinn borða einungis 500 kaloríur á dag tvo daga vikunnar en karlar 600 kaloríur. Hina dagana fimm er mataræðið hefðbundið.

Prófessornum fannst aðferðin, sem sjónvarpsmaðurinn og læknirinn Michael J. Mosley kynnti árið 2012, áhugaverð, að því er sænska ríkissjónvarpið greinir frá. Hún ákvað að fá einstaklinga sem glíma við ofþyngd, háan blóðþrýsting og fullorðinssykursýki á byrjunarstigi til að prófa 5:2 kúrinn til að komast að því hvaða áhrif hann hefði á heilsu þeirra. 105 einstaklingar hófu kúrinn sem stendur yfir í sex mánuði. Niðurstöður af áhrifum kúrsins á heilsu 62 liggja nú fyrir. Meirihluti þeirra greinir frá því að sér líði vel af kúrnum. Líkamsþyngdarstuðull þeirra er nú rétt undir 27 en fyrir kúrinn var hann rétt undir 29. Aðeins 11 af þeim 105 sem hófu kúrinn hættu.

Heilsufar þátttakenda var rannsakað fyrir kúrinn og síðan eftir sex vikur, þrjá mánuði og sex mánuði. Kannað er hálfu ári eftir að kúrnum lýkur hvort áhrifa hans gæti enn.

Þegar kúrinn hófst var mittismál þeirra sem voru með fullorðinssykursýki á byrjunarstigi að meðaltali 104 cm. Aukin hætta er talin á hjarta- og æðasjúkdómum ef mittismálið er yfir 102 cm. Eftir að hafa verið á 5:2 kúrnum í sex mánuði var mittismálið orðið 100 cm. Áhrifa kúrsins gætti enn hálfu ári eftir að rannsókninni lauk og mittismálið var að meðtali orðið 98,5 cm.

Áhrifin á þá sem ekki voru með fullorðinssykursýki voru einnig góð en þeir voru grennri við upphaf rannsóknarinnar og grenntust ekki jafnmikið. Mælingar á kólesteróli, blóðþrýstingi, blóðsykri og bólgu leiddu í ljós jákvæðar breytingar.

Það er mat prófessorsins að niðurstöður rannsókna hennar styrki ekki kenninguna um að 5:2 kúrinn minnki insúlínlíka vaxtarþáttinn IGF-1, sem sagður er tengjast frumuvexti og krabbameini, það mikið að kúrinn lengi lífið hjá fólki. Rannsóknir á músum sýndu að minnkað magn IGF-1 hjá þeim lengdi líf þeirra.

Hvað er sykursýki?

Sykursýki (diabetes) er efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af of háum sykri í blóðinu vegna minnkaðrar framleiðslu á hormóninu insúlíni í brisinu, minnkaðra áhrifa þess í líkamanum eða beggja þessara þátta.

Helstu einkenni eru þorsti, tíð þvaglát, þreyta og slen.

Sykursýki er í grófum dráttum tvenns konar; tegund 1 og tegund 2, sem einnig kallast fullorðinssykursýki.

Tegund 1 greinist aðallega í börnum og ungu fólki og einkennist af bráðum insúlínskorti.

Tegund 2 Á síðustu árum hefur komið í ljós að insúlínskortur á einnig þátt í fullorðinssykursýki. Hún einkennist auk þess af auknu insúlínþoli þar sem frumur líkamans hafa myndað ónæmi eða þol gegn insúlíni. Fullorðinssykursýki var áður kölluð insúlín-óháð sykursýki en í ljósi nýrrar þekkingar þykir það gefa villandi mynd af sjúkdómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×