Owen leiðist á bekknum
Enski framherjinn Michael Owen er orðinn leiður á því að verma varamannabekkinn hjá spænska stórliðinu Real Madrid og segir það ekki vera uppbyggilegt fyrir heimsmeistarakeppnina í Þýskalandi á næsta ári. Owen hefur áhyggjur af því að sæti hans í byrjunarliði enska landsliðsins sé í hættu ef hann fær ekki að spila meira. Hann hefur verið orðaður við Arsenal í skiptum fyrir Spánverjann Jose Antonio Reyes en það er þó talið ólíklegt því Arsene Wenger vill ekki missa Reyes. Vanderlei Luxemburgo, þjálfari Real Madrid, telur Owen hins vegar vera lykilmann í liði Real Madrid og lofar því að hann fái að spila meira á næstu vikum. "Það er ekki eins og Ronaldo og Raul muni spila hvern einasta leik. Ég er hrifinn af Owen því hann hlustar og stendur sig alltaf vel á æfingum. Hann er mikill karakter," sagði Luxemburgo.