Erlent

Boðskapurinn löngu orðinn almannaeign

Ingólfur Margeirsson
Ingólfur Margeirsson
Þrjátíu ár voru í gær liðin síðan John Lennon var, síðla kvölds, myrtur fyrir utan heimili sitt í New York. John Lennon lifir þó enn meðal aðdáenda sem einn áhrifamesti listamaður allra tíma.

Ásamt félaga sínum Paul McCartney stofnaði hann í Liverpool Bítlana, sem urðu ein vinsælasta hljómsveit allra tíma. Tónlist hans hefur haft mikil áhrif á nútímann, ekki aðeins í tónlist heldur á menningarheim fólks líka.

John Lennon hóf sólóferil sinn eftir að hann kynntist Yoko Ono og hætti í Bítlunum. Þá segir Ingólfur Margeirsson Bítlasérfræðingur að öll hans viðhorf hafi breyst. „Lennon verður sjálfhverfari. Hann var mesti listamaðurinn í Bítlunum og sú hlið hans blómstraði með Yoko. Hann bar út friðarboðskap og leiddi ákveðna friðarhreyfingu í tónlist.“

„Lennon uppskar mikið með friðar­boðskap sínum. Hann er að mínu mati einn mesti friðarpostuli sem nokkurn tíma hefur verið uppi. Hann sagði í viðtali að Bítlarnir væru stærri en Jesús og meinti þá að þeir hefðu meiri áhrif en hann. Ég er viss um að það sé rétt.“

Ingólfur bendir á að boðskapur Lennons sé talinn sjálfsagður í dag: Baráttan gegn stríði, náttúruspjöllum og kynþáttahatri. „Það merkilegasta sem hann skildi eftir sig var þessi huglæga bylting.“

Dauði hans árið 1980 var heiminum mikið áfall. John Lennon hafði gefið Mark David Chapman eiginhandaráritun fyrr um kvöldið 8. desember. Chapman skaut hann svo fjórum sinnum í bakið. Hann situr enn í fangelsi fyrir verknaðinn.

„Lennon hefur fylgt mér í gegnum allt mitt líf og mun fylgja mér alla leið í gröfina,“ segir Ingólfur að lokum.

birgirh@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×