Erlent

Nítján lönd hunsa athöfnina

Mótmælaborði með mynd af Liu Xiaobo, handhafa friðarverðlauna Nóbels í ár. Fréttablaðið/AP
Mótmælaborði með mynd af Liu Xiaobo, handhafa friðarverðlauna Nóbels í ár. Fréttablaðið/AP
Nítján lönd, að Kína meðtöldu, ætla ekki að senda fulltrúa við afhendingu friðarverðlauna Nóbels til kínverska mótmælandans Liu Xiaobo, að því er fram kemur í tilkynningu norsku Nóbelsnefndarinnar. Afhendingin fer fram á morgun, föstudag.

Meðal landa sem afþakkað hafa boð um að vera við athöfnina eru Rússland, Pakistan, Serbía, Íran, Venesúela og Kúba. Nóbelsnefndin segir 44 lönd hafa þekkst boðið.

Stjórnvöld í Kína reiddust mjög þegar friðarverðlaun Nóbels voru veitt Liu Xiaobo, en hann afplánar ellefu ára fangelsisdóm í Kína fyrir undirróðursstarfsemi, eftir að hafa með fleirum ritað ákall um umbætur á stjórnmálakerfi landsins.

Jiang Yu, talskona kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði blaðamönnum í gær að norska Nóbels­nefndin væri að setja á svið and-kínverskan farsa. „Við breytum ekki okkar háttum þrátt fyrir truflun frá einhverjum trúðum og hverfum ekki af okkar braut,“ sagði hún.

Ættingjar Liu hafa ekki fengið leyfi stjórnvalda í Kína til að yfirgefa landið til að veita friðarverðlaununum viðtöku fyrir hans hönd. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×