Innlent

Nígeríumenn vilja að íslenska lögreglan stöðvi breskan svindlara

Breskur svikahrappur, sem staddur er hér á landi, notar viðskipti með íslenska skreið til að féfletta kaupendur í Nígeríu. Sendiherra Nígeríu á Íslandi varar við svikaranum, fyrir hönd þeirra landsmanna sinna, sem hafa verið blekktir.

Það má segja að þetta séu svonefnd Nígeríusvik með öfugum formerkjum, hér sé verið að svíkja Nígeríumenn en ekki öfugt, sem þekkt er til margra ára. Bretinn, sem af og til hefur komið hingað í fjöl mörg ár, þekkir vel til skreiðarmarkaðarins hér á landi. Mikil spurn er nú eftir skreið í Nígeríu og er íslensk premium skreið í þvílíkum hávegum höfð þar í landi, að kaupendur eru fúsir til að greiða fyrirfram fyrir hana.

Og það ástand er Bretinn einmitt að nota sér. Fyrr á árinu kom skreiðarkaupmaður frá Nígeríu hingað til lands til að grennslast fyrir um skreiðarfarm, sem hann var búinn að greiða fyrir en hafði ekki fengið. Allir pappírar virtust vera eðlilegir nema heimilisfang íslenska sölufyrirtækisins, sem var: Þrumuvallagata númer 620 - Húsavík-Ísland. Bretinn hefur gjarnan notað íslenska milliliði, eða leppi, sem ekki vita endilega hvers kyns er.

Einn slíkan notaði hann nýverið til að kaupa tvo gáma af þriðja flokks skreið fyrir slikk, dreifði farminum í fjóra gáma einhvernstaðar á leiðinni, og seldi þá alla óséða sem fyrsta flokks skreið á toppverði. Þau svik ein, nema tugum milljóna króna. Nígeríumenn vilja að íslenka lögreglan grípi í taumana.

En erfitt er um vik þar sem hann notar íslenska leppi, og er því ekki sjálfur brotlegur á Íslandi. Hann er breskur að uppruna, brotin eru framin gegn Nígeríumönnum í Nígeríu og hann er búsettur á Gíbraltar, sem hefur ekki framsalssamninga við Ísland eða Nígeríu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×