Innlent

Lögreglumenn fagna tillögu um rannsókn

Mynd/Pjetur
Landssamband lögreglumanna fagnar framkominni þingsályktunartillögu sem miðar að því að rannsakaður verði meintur þáttur þingmanna í Búsáhaldabyltingunni.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksinsn, lagði fram á Alþingi í vikunni, tillögu um að þriggja manna nefnd sérfræðinga verði skipuð til þess að skoða framferði þingmanna í Búsáhaldabyltingunni.

„Það er ekki síður fagnaðarefni að við slíka rannsókn verði gerður upp þessi kafli í þeim óeirðum sem urðu utan við Alþingi Íslendinga í kjölfar bankahrunsins og þeir einstaklingar, eftir atvikum, þá hreinsaðir af þeim ávirðingum sem fram hafa komið í fjölmiðlum, séu þær ekki á rökum reistar," segir í ályktun landssambandsins.

Þar segir ennfremur: „Það er með öllu ólíðandi, sé einhver fótur fyrir þeim fréttaflutningi, sem af málinu hefur verið, að þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga skuli hugsanlega hafa stuðlað að árásum á sjálft Alþingi. Árásum sem orsökuðu líkamstjón bæði lögreglumanna og starfsmanna Alþingis. Slíkar athafnir, séu þær á rökum reistar, eru bein árás á það þjóðskipulag sem hér ríkir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×