Erlent

Páfinn undir þrýstingi vegna misnotkunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frans páfi.
Frans páfi. Vísir/AP
Frans páfi er undir miklum þrýstingi um að grípa til umfangsmikilla aðgerða gegn misnotkun innan kaþólsku kirkjunnar. Rúmlega 300 prestar voru nýlega sakaðir um að hafa misnotað minnst þúsund börn á sjö áratugum í Bandaríkjunum. Slíkar ásakanir hafa litið dagsins ljós víða um heim.

Páfinn hefur kallað eftir því að nauðsyn sé að uppræta menningu þöggunar innan kirkjunnar og hefur hann lofað því að ekki verði lengur hylmt yfir misnotkun innan kirkjunnar.

Sjá einnig: Páfi lofar því að kirkjan hylmi ekki lengur yfir með níðingum



Þrýstingurinn hefur aukist mikið og er kallað eftir breytingum bæði innan kirkjunnar og utan hennar.

„Klukkan tifar gagnvart okkur öllum innan forystu kirkjunnar. Kaþólikkar hafa misst þolinmæðina og almenningur treystir okkur ekki,“ sagði kardínálinn Sean O‘Malley, erkibiskup Boston, í síðustu viku.

Erkibiskub Dublin, Diarmuid Martin, hefur slegið á svipaða strengi og sagði ekki nóg að biðjast afsökunar. Það þyrfti að rífa stofnanir sem hafi gert brotamönnum kleift að felast niður. Martin mun taka á móti páfanum í Írlandi um helgina. Hann hefur haldið því fram að rannsóknarnefnd páfans, sem rannsaka á misnotkun innan kirkjunnar, sé allt of fámenn til að geta gert eitthvað markvisst.

AFP ræddi við blaðamanninn Emiliano Fittipaldi, sem hefur rannsakað misnotkun innan kirkjunnar lengi, og hann sagði að Frans páfi ætti að þvinga forsvarsmenn kirkjunnar að greina þarlendum yfirvöldum frá ásökunum um kynferðsibrot.



„Afsakanir duga ekki lengur til,“ sagði Fittipaldi.

Fórnarlömb presta eru sammála Fittipaldi. Francesco Zanardi, leiðtogi samtaka fórnarlamba á ítalíu, segir ótækt að slík mál séu yfirleitt eingöngu rannsökuð innan kirkjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×