Fótbolti

Skildi eftir tvo af bestu leikmönnum liðsins vegna þess að þeir spila í Kína

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Clarence Seedorf spilaði fyrir bestu lið Evrópu.
Clarence Seedorf spilaði fyrir bestu lið Evrópu. vísir/getty
Clarence Seedorf, nýráðinn þjálfari kamerúnska landsliðsins í fótbolta, valdi sinn fyrsta leikmannahóp í gærkvöldi fyrir leik í undankeppni Afríkukeppninnar á móti Comoros.

Fyrsti hópur Hollendingsins kom mjög á óvart því að hann skildi eftir tvo af bestu mönnum liðsins; Christian Bassogog og Benjamin Moukandjo. Bassogog var útnefndur besti leikmaður Afríkukeppninnar 2017 sem að Kamerún vann og Moukandjo var áður fyrirliði liðsins.

Ástæðan fyrir því að Seedorf skildi þá eftir heima er sú að þeir spila í kínversku úrvalsdeildinni. Moukandjo er á mála hjá Beijing Renhe og Bassogog spilar fyrir Henan Jinaye.

Seedorf hefur ekkert álit á kínversku deildinni og segir að góðir leikmenn eigi að spila fyrir bestu lið Evrópu og koma við sögu í Meistaradeildinni.

„Góðir ungir leikmenn spila ekki í Kína eða í Asíu yfir höfuð,“ sagði Seedorf á fréttamannafundi þar sem að hann tilkynnti hópinn.

„Leikmenn verða að skilja að ef þeir eltast við betri samninga í þessum löndum missa þeir sæti sitt í landsliðinu. Við erum ekki að loka neinum dyrum. Við viljum bara leikmenn sem leggja mikið á sig fyrir kamerúnska landsliðið,“ sagði Clarence Seedorf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×