Fótbolti

KSÍ vill að Ceferin verði áfram forseti UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksander Ceferin.
Aleksander Ceferin. Vísir/Getty
Knattspyrnusamband Íslands ætlar að styðja Slóvenann Aleksander Ceferin í komandi forsetakosningum í Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.

Aleksander Ceferin er fimmtugur Slóveni sem settist í forsetastólinn árið 2016. Hann hafði þar á undan verið forseti Knattspyrnusambands Slóveníu í fimm ár.

KSÍ segir frá því á heimasíðu að Aleksander Ceferin verði þeirra maður í komandi kosningum sem fara fram eftir hálft ár.

Aleksander Ceferin er sjöundi forseti UEFA frá upphafi en hann tók við af Spánverjanum Ángel María Villar sem sat þó aðeins í 341 dag í stólnum.

Áður hafði Frakkinn Michel Platini verið forseti UEFA í tæp 9 ár (2007-2015) og Svíinn Lennart Johansson verið forsti í tæp sautján ár (1990-2007).

Fulltrúar knattspyrnusambanda Norðurlandanna sex hittust síðastliðna helgi í Helsinki í Finnlandi, en um var að ræða árlegan Norðurlandafund.

Frá KSÍ mættu meðal annars formaðurinn Guðni Bergsson, framkvæmdastjórinn Klara Bjartmarz og gjaldkerinn Borghildur Sigurðardóttir.

Á fundinum ákváðu knattspyrnusamböndin, samkvæmt tillögu formanna og í samráði við stjórnir þeirra, að styðja framboð Aleksander Ceferin til áframhaldandi setu sem forseti UEFA.

Stuðningsyfirlýsingar fyrir framboði Ceferin munu verða sendar UEFA af hverju knattspyrnusambandi fyrir sig.

Forsetakosningar UEFA fara fram á 43. þingi sambandsins í Róm, Ítalíu, þann 7. febrúar 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×