Innlent

Bjarni útilokar ekki að það dragi til tíðinda strax í næstu viku

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er bjartsýnn á að það takist að mynda nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar og útilokar ekki að það dragi til tíðinda strax í næstu viku.

Ríkisráð, það eru forseti Íslands og ráðherrar, funduðu á Bessastöðum klukkan tíu í morgun. Væntanlega er um einn af síðustu ríkisráðsfundum þessarar ríkisstjórnar að ræða.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gekk í gær á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands og fékk formlegt umboð til ríkisstjórnarmyndunar. Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefjast svo á mánudaginn.

Bjarni segist ekki hafa átt von á því eftir Alþingiskosningarnar, í lok október, að þessi ríkisstjórn yrði enn við völd við lok árs en það hafi þó ekki komið honum á óvart. Hann segist bjartsýnn á að það takist að myndast ríkisstjórn þessara þriggja flokka. „Ég verð líka að vera bjartsýnn á það. Það er nú eina hugarfarið sem dugar þegar maður er að sinna störfum sem þessum,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni útilokar ekki að það geti dregið til tíðinda strax í næstu viku. „Í gær þegar ég fékk stjórnarmyndunarumboðið þá lét ég þess getið að við værum nú komin dálítið á leið með að binda um þessi mikilvægustu mál þannig að það ætti svo sem ekki að taka mjög langan tíma,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×