Erlent

Þjófóttir hermenn drápu sjö

Þúsundir nauðstaddra hafa flykkst til höfuðborgarinnar þar sem sjö manns létust í átökum hermanna og almennings í gær.  Fréttablaðið/AP
Þúsundir nauðstaddra hafa flykkst til höfuðborgarinnar þar sem sjö manns létust í átökum hermanna og almennings í gær. Fréttablaðið/AP
Sjö manns létust í gær eftir að sómalískir stjórnarhermenn hófu skothríð á mannfjölda í höfuðborginni Mógadisjú.

Fulltrúar Matvælahjálpar Sameinuðu þjóðanna voru að dreifa korni til nauðstaddra þegar átök brutust út. Að sögn viðstaddra urðu hermennirnir uppvísir að stuldi á neyðarmatvælunum. Hópurinn veittist þá að hermönnunum sem skutu á fólkið og létust sjö manns hið minnsta. Hermennirnir flúðu síðan af vettvangi með matinn.

Forsætisráðherra Sómalíu, Abdiweli Mohamed Ali, heimsótti flóttamannabúðirnar eftir skotárásina og sagðist harma atburðinn. Hann lýsti því einnig yfir að málið yrði rannsakað í þaula og þeim sem yrðu fundnir sekir yrði refsað harðlega.

Ófremdarástand ríkir í Mógadisjú líkt og fleiri hlutum landsins þar sem friðargæslusveitir Afríkusambandsins stjórna átta af sextán hverfum. Þrjú eru undir stjórn skæruliðahópa og enn er barist um yfirráð í fimm hverfum.

Hungursneyð ríkir í suðurhluta Sómalíu, þar sem skæruliðaflokkurinn al-Shabab ræður ríkjum.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×