Fótbolti

„Jamal Musaila er besti enski leikmaðurinn sem þú hefur aldrei heyrt um“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jamal Musiala í leik með Bayern gegn Leverkusen skömmu fyrir jól.
Jamal Musiala í leik með Bayern gegn Leverkusen skömmu fyrir jól. Alex Gottschalk/Getty

Það eru væntanlega fáir sem þekkja til Englendingsins Jamal Musiala en þessi sautján ára leikmaður er á mál hjá Bayern Munchen þar sem hann er búinn að brjótast inn í aðallið félagsins.

Rob Draper, á Daily Mail, skrifaði grein um Jamal á Mail Online í gærkvöldi en þar segir hann að Jamal sé „besti leikmaður sem þú hefur ekki heyrt um og að hann gæti orðið næsta stjarna Englands, ef Þýskaland nær honum ekki fyrst.“

Ungir enskir leikmenn hafa gert það gott í Þýskalandi að undanförnu. Jadon Sancho fór til Dortmund og Jude Bellingham fetaði í hans fótspor en Musaila skrifaði sig í sögubækurnar hjá bayern í júní á síðasta mánuði er hann varð yngsti leikmaðurinn í sögu félagsins til þess að spila í úrvalsdeildinni.

Þá var hann sautján ára og 205 daga er hann kom inn á gegn Freiburg en hann skoraði svo sitt fyrsta mark í september síðastliðnum gegn Schalke. Hann spilaði svo fyrsta leikinn sinn í Meistaradeildinni í desember svo hann er búinn að fá þó nokkra reynslu þrátt fyrir ungan aldur.

Þessi sóknarþenkjandi leikmaður ólst upp í Þýskalandi en hann á nígerískan föður og þýska móður. Hann flutti þó til Englands sjö ára gamall, til Southampton, þar sem hann var í stuttan tíma áður en hann snéri aftur til Þýskalands. Aftur var þó förinni heitið til Englands en nú til London þar sem Chelsea varð áfangastaðurinn.

Hann kom til Englands árið 2011 á nýjan leik og var þar í átta ár áður en hann gekk í raðir Bayern Munchen á nýjan leik árið 2019. Hann á eitt og hálft ár eftir af samningi sínum en talið er að Manchester United og Liverpool fylgist vel með gangi mála hjá honum. Þó eru Bæjarar taldir vilja framlengja samning sinn.

Musiala getur valið þrjár þjóðir til að spila fyrir; Nígeríu, England og Þýskaland en talið er að England sé í bílstjórasætinu. Hann spilaði fyrir U21-ára lið þeirra í nóvember er hann skoraði meðal annars í 5-0 sigrinum á Albönum. Bæði Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, og Joachim Löw, þjálfari Þýskalands, hafa sett sig í samband við leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×