Þetta kemur fram í tilkynningu frá söngkonunni.
„Það er mat mitt, FÍH og lögmanna okkar að dómur héraðsdóms sé rangur í öllum meginatriðum. Í honum felast alvarleg tíðindi fyrir allt listafólk sem semur um kaup sín og kjör fyrir einstök verkefni við listastofnanir sem m.a. njóta opinbers fjárframlags. Í dóminum kemur fram að þrátt fyrir gildandi kjarasamninga milli stéttarfélaga og listastofnana sé heimilt að greiða listamönnum minna en lágmarkskjör samkvæmt gildandi kjarasamningum. Dómurinn gengur þvert á þá lögfestu meginreglu vinnuréttar að samningar um lakari kjör en kveðið er á um í kjarasamningum séu að engu hafandi. Þá telur dómurinn að allan vafa um hvað greiða skuli samkvæmt samningum skuli túlka listamanninum í óhag,“ segir í tilkynningunni.
„Dómurinn rekur fleyg í samstöðu listafólks sem það hefur leitast við að skapa með því að nýta lagalegan rétt sinn til að stofna stéttarfélög til að semja um lágmarkskjör félagsmanna. Listastofnanir eru í yfirburðaaðstöðu þegar kemur að því að semja um endurgjald við listamenn.
Verði niðurstöðunni ekki breytt munu listamenn ekki lengur njóta þeirra lágmarksréttinda sem fram koma í kjarasamningum FÍH sem Íslenska óperan og aðrar listastofnanir hafa skuldbundið sig til að virða.
Það er grundvallarregla á Íslandi að kjarasamningar sem stéttarfélög hafa gert við stofnanir um lágmarkskjör séu virtir. Sú regla hefur verið óumdeild á íslenskum vinnumarkaði í tugi ára. Óhjákvæmilegt er að fá úr því skorið fyrir æðri dómstól hvort þessi réttur sé enn til staðar eða hvort hann hafi verið afnuminn.“