Þeir Ronan Hughes og Gheroghe Nica eru leiðtogar smyglhrings sem flutti fólkið og voru dæmdir í tuttugu ára fangelsi annars vegar og 27 ára fangelsi hins vegar.
Eamonn Harrison, sem keyrði gámnum frá Frakklandi til Belgíu var dæmdur í átján ára fangelsi og Maurice Robinson, sem tók við gámnum í Bretlandi var dæmdur í rúmlega þrettán ára fangelsi.
Fjórir voru dæmdir í fangelsi í Víetnam í fyrra.
Sjá einnig: Fjórir dæmdir eftir að 39 fundust látin í vörubíl
Samkvæmt frétt Sky var það Robinson sem uppgötvaði að fólkið væri dáið í gámnum en hann beið með að hringja í sjúkrabíl í 23 mínútur.
Hughes hafði sent Robinson skilaboð um að hleypa lofti inn í gáminn þegar hann tæki við honum en sagt honum að passa að enginn myndi sleppa úr gámnum. Lögmenn allra mannanna sögðu þá ekki hafa vitað hve margir væru í gámnum.
Í hópi hinna látnu voru 31 karlmaður og átta konur. Þeir yngstu í hópnum voru tveir fimmtán ára drengir.
Fólkið kafnaði og náði hitinn í gámnum í allt að 38,5 gráður.