„Ég er ekki ánægður með tapið. Við töpuðum með sjö stigum fyrir Keflavík og átta stigum í kvöld,“ sagði Borche við Vísi eftir leik.
Hann átti auðvelt með að setja fingur á það hvað vantaði upp á hjá hans mönnum í kvöld.
„Fráköst, vítanýting, og svo skortur á einbeitingu á nokkrum augnablikum í vörninni. Við misstum einbeitinguna og Stjarnan refsaði. Á heildina litið stöndumst við þessum bestu liðum snúning en á sumum sviðum þurfum við að bæta okkur.“
Zvonko Buljan lék sinn fyrsta leik fyrir ÍR í kvöld og virkaði ryðgaður. „Hann náði bara einni fimmtíu mínútna æfingu með okkur í gær. Hann klúðraði sniðsskotum, lappirnar voru þungar og við þurfum að vinna í líkamlegu formi hans. En þegar allt smellur saman held ég að við getum keppt,“ sagði Borche.
ÍR var allan tímann í eltingarleik í kvöld. Mestur varð munurinn átján stig í 3. leikhluta þar sem ÍR-ingar áttu erfitt uppdráttar.
„Þeir náðu góðu forskoti en það góða er að við komum til baka. Við þurfum að vera einbeittari, sérstaklega í vörninni,“ sagði Borche sem lítur þó björtum augum til næstu vikna.
„Heilt yfir er ég mjög bjartsýnn. Strákarnir mínir gefa allt sem þeir eiga í leikina. Við vorum að spila við Keflavík og Stjörnuna sem eru topplið og þetta voru jafnir leikir. Við þurfum að byggja ofan á þetta.“