Innlent

„Auknar líkur á eldgosi“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Öflugur skjálfti varð kl 14:15 í dag. 
Öflugur skjálfti varð kl 14:15 í dag.  Vísir/Vilhelm

Líkur á eldgosi halda áfram að aukast, að sögn Kristínar Jónsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Skjálftavirknin hefur verið að færast til suður en skjálftinn fannst meðal annars á Sauðárkróki.

„Ég myndi segja að líkurnar á gosi aukast þegar þessi læti eru í gangi. Og sérstaklega þegar það verða svona skjálftar sem eru að brjóta mjög mikið. Þá losnar spenna og losnar pláss og við erum bara enn í þessum atburði. Á meðan þessir atburðir eru í gangi og þessi mikla virkni þá bendir það til þess að það sé enn þá kvikuflæði í gangi og mikill þrýstingur á kvikuganginum – og þar með eru auknar líkur á eldgosi,“ segir Kristín.

Hún segist telja að stóri skjálftinn klukkan rúmlega tvö, sem mældist 5,4 að stærð, hafi verið svokallaður gikkskjálfti.

„Gikkskjálftar eru afleiðing af spennubreytingu á stóru svæði. Við erum með þessa rifu þar sem kvikan er og kvikugangurinn myndast. Kvikan er að pota sér þar, en um leið og hún fær meira pláss og fer að ýta á skorpuna í kringum sig þá er það ekki bara skorpan sem er alveg næst kvikuganginum sem verður fyrir áhrifum heldur bara stórt svæði. Fólk í margra kílómetra fjarlægð fann fyrir þessu,“ segir Kristín.

Skjálftinn varð um 2,5 kílómetra vestur af Nátthaga. Hann fannst vel á suðvesturhorninu, norður á Sauðárkrók og suður í Vestmannaeyjar. Annar skjálfti fylgdi í kjölfarið, klukkan 14.38 og var samkvæmt fyrsta mati 4 að stærð. Um tvö þúsund skjálftar hafa mælst frá miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×