Bæði Valgeir og Andri Fannar hafa glímt við meiðsli en Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U-21 árs landsliðsins, vonast til að geta teflt þeim fram í leiknum gegn Rússlandi á morgun.
„Allir eru í ágætis standi. Valgeir er alltaf að verða betri og gerir meira með hverjum deginum. Andri Fannar er með smá hnjask og verður rólegur í dag,“ sagði Davíð á blaðamannafundi í Györ í Ungverjalandi í dag.
Að sögn Davíðs kemur það betur í ljós eftir æfingu í dag hvort þeir Valgeir og Andri Fannar geti verið með á morgun. Hann er þó vongóður.
„Við vitum betur með Valgeir og Andra Fannar á eftir. Þeir eiga klárlega að vera í lagi,“ sagði Davíð Snorri.
Andri Fannar lék þrjá leiki í undankeppni EM og Valgeir einn. Andri Fannar leikur með Bologna á Ítalíu en Valgeir, sem var valinn besti ungi leikmaður Pepsi Max-deildarinnar í fyrra, er nýgenginn í raðir Häcken í Svíþjóð.