Erlent

Sjálfs­vígs­á­rás við dóm­kirkju í Indónesíu

Sylvía Hall skrifar
Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. AP Photo/Masyudi S. Firmansyah

Í það minnsta fjórtán eru særðir eftir að sjálfsvígsárás var gerð við dómkirkju í borginni Makassar í Indónesíu í morgun. Messan var í tilefni pálmasunnudags og var kirkjan þéttsetin þegar árásin var framin.

Talið er að tveir árásarmenn hafi verið að verki, að því er fram kemur í frétt AP um málið. Mennirnir höfðu komið á mótorhjólum og beðið öryggisverði um að hleypa sér inn í kirkjuna áður en sprengja annars þeirra sprakk nærri inngangi kirkjunnar. Á þeim tíma var fyrsti hópur kirkjugesta á leið út úr kirkjunni og annar á leið inn.

Fjórir öryggisverðir eru á meðal hinna særðu og nokkrir kirkjugestir. Myndbönd sem AP hefur undir höndum sýna líkamshluta á víð og dreif nærri árásarstaðnum, en lögregla vinnur nú að því að bera kennsl á árásarmennina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×