Heilbrigðisráðuneytið hafði gefið nefndarmeðlimum þau svör að trúnaður ríkti um hluta upplýsinganna og þau væri hægt að afhenda nefndinni til skoðunar með þeim fyrirvara.
Halldóra Mogensen, fulltrúi Pírata í nefndinni, hafði gagnrýnt það að hluti gagnanna væri trúnaðarupplýsingar og sagði hún í samtali við fréttastofu í morgun að hún vildi ekki láta múlbinda sig eftir móttöku gagnanna. Halldóra staðfesti það í samtali við fréttastofu að gögnin hafi verið afhent og muni hún lesa þau í kvöld.
Hún sagði innihald minnisblaðanna eiga fullt erindi bæði við almenning og nefndarfólk til að meta stöðuna. Ráðuneytið gæti skyggt hluta sem eðlilega yrði að ríkja trúnaður um.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðiráðherra sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að venjulega séu gögn sem þessi ekki látin öðrum í hendur en þeim sem í ríkisstjórn sitja. Í þessu tilfelli hafi gögnin hins vegar átt erindi við almenning og því hafi þau verið afhent velferðarnefnd.