Lögregla var einnig kölluð til vegna manns í Breiðholti sem var að henda búslóð sinni fram af svölum. Einhverjir munir höfðu lent á bílum nágranna hans og er maðurinn sagður hafa verið í annarlegu ástandi, en hann var vistaður í fangaklefa.
Í Árbæ var svo annar maður handtekinn vegna líkamsárásar og hótana en ekki kemur fram hvert ástand brotaþola er. Í Grafarholti var grjóti hent inn um rúðu á íbúðarhúsi en engin slys urðu á fólki.
Þá þurfti lögregla að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum, ýmist vegna hraðaksturs eða vímuefnaaksturs. Í Hafnarfirði var ökumaður stöðvaður undir áhrifum fíkniefna en sá var á ótryggðum bíl með fíkniefni meðferðis. Umferðaróhapp varð einnig í Hafnarfirði í gær þegar kerra losnaði aftan úr bíl og lenti framan á öðrum sem kom úr gagnstæðri átt, en engin slys urðu á fólki.
Samkvæmt dagbók lögreglu voru að minnsta kosti tvo mál þar sem ökumenn voru langt yfir hámarkshraða, en einn þeirra var mældur á 135 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkustund. Annar ökumaður var svo stöðvaður í Hafnarfirði á 165 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund. Báðir voru sviptir ökuréttindum til bráðabirgða.
Í hverfi 105 voru tveir handteknir vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna og voru þeir vistaðir í fangaklefum. Í sama hverfi þurfti lögregla að aðstoða starfsfólk á hóteli við að vísa tveimur karlmönnum og einni konu út sem voru í annarlegu ástandi og til vandræða.