Fótbolti

Viðar Örn á leið í að­gerð og verður frá næstu vikurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson skoraði eitt fjögurra landsliðsmarka sinna gegn Dönum á Parken síðasta haust, í Þjóðadeildinni.
Viðar Örn Kjartansson skoraði eitt fjögurra landsliðsmarka sinna gegn Dönum á Parken síðasta haust, í Þjóðadeildinni. Getty/Gaston Szermann

Íslenski landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson verður frá næstu fimm til sex vikurnar þar sem hann er með brákað bein í fæti. Fer hann í aðgerð á morgun, fimmtudag.

Fótbolti.net greindi frá.

Hinn 31 árs gamli Viðar Örn leikur með Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni. Selfyssingurinn hefur skorað eitt mark og lagt upp eitt í fimm leikjum til þessa á leiktíðinni. Viðar Örn var valinn í landsliðshóp Íslands sem mætir Færeyjum og Póllandi í vináttulandsleikjum á næstu dögum.

Vegna meiðslanna þurfti Viðar hins vegar að draga sig úr landsliðshópnum og nú er ljóst að hann mun missa af næstu leikjum Vålerenga.

Vålerenga situr sem stendur í 5. sæti deildarinnar með 11 stig að loknum sex leikjum. Þremur stigum minna en topplið Rosenborg sem hefur leikið leik meira.

Viðar Örn hefur alls leikið 28 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×