Erlent

Krefst þrjá­tíu ára fangelsis­dóms yfir Chau­vin

Atli Ísleifsson skrifar
Derek Chauvin var sakfelldur í málinu í apríl. Dómur verður kveðinn upp síðar í mánuðinum.
Derek Chauvin var sakfelldur í málinu í apríl. Dómur verður kveðinn upp síðar í mánuðinum. AP

Saksóknari í Bandaríkjunum hefur krafist þess að Derek Chauvin, lögreglumaðurinn fyrrverandi sem sakfelldur var fyrir að hafa orðið hinum 46 ára George Floyd að bana í Minneapolis í maí á síðasta ári, verði dæmdur í þrjátíu ára fangelsi.

Chauvin var sakfelldur fyrir morðið í apríl síðastliðinn og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan. Dómur yfir Chauvin verður kveðinn upp þann 25. júní næstkomandi.

NBC segir frá því að saksóknari hafi rökstutt mál sitt meðal annars með orðum um að Chauvin hafi sýnt af sér mikla grimmd í aðgerðum sínum þegar hann þrengdi að öndunarvegi Floyd með því að leggja hné sitt að hálsi Floyd þar sem hann lá í götunni. Sömuleiðis hafi hann misnotað aðstöðu sína sem lögreglumaður.

Verjandi Chauvin segir að skjólstæðingur sinn ætti að fá skilorðsbundinn dóm, þar sem hann eigi að hafa breytt í góðri trú. Áður hafði verjandi Chauvins farið fram á að málflutningur og vitnaleiðslur yrðu endurteknar þar sem mikil fjölmiðlaumfjöllun hafi leitt til þess að málsmeðferðin væri óréttlát.

Myndbönd náðust af því þegar hópur lögreglumanna, Chauvin þar með talinn, handtók Floyd og leiddi dauði Floyd til mikilla mótmæla gegn kynþáttafordómum og ofbeldi lögreglumanna víðs vegar um heim.


Tengdar fréttir

Lögmaður Chauvins fer fram á ný réttarhöld

Lögmaður Dereks Chauvin, fyrrverandi lögregluþjónn sem var nýverið dæmdur fyrir að myrða George Floyd í Minneapolis, hefur farið fram á að ný réttarhöld um málið fari fram. Tvær vikur eru síðan Chauvin var sakfelldur en Eric Nelson, lögmaðurinn, segir þau hafa verið ósanngjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×