Talibönum hefur vaxið ásmegin samhliða því að hermenn Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins eru að yfirgefa landið.
Reuters vitnar í landamæraverði Tadsíkistan sem segja 1.037 hermenn hafa flúið yfir landamæri ríkjanna en Talibanar tóku yfir sex lykilhéruð á landamærum ríkjanna tveggja og Kína.
Emomali Rakhmon, forseti Tadsíkistan, ræddi að Ashraf Ghani, forseta Afganistans, í gær og lýsti yfir áhyggjum af því að hermennirnir hefðu rutt sér leið yfir landamærin.
Þá hefur fréttaveitan eftir þjóðaröryggisráðgjafa Afganistans að forsvarsmenn stjórnarhersins ætli sér að gera gagnárás gegn Talibönum í norðri.
Frá því að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir í apríl að hann ætlaði að flytja bandaríska hermenn heim frá Afganistan hafa Talibanar sótt í sig veðrið víða um landið. Þeir hafa forðast það að ráðast á hermenn NATO en gengið hart fram gegn stjórnarhernum.
Yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Afganistan varaði nýverið við því að Afganar stæðu frammi fyrir erfiðum tímum og mögulegri borgarastyrjöld.
Talibanar hafa náð tökum á stórum svæðum í norðurhluta landsins en þeim svæðum hefur verið stýrt af stríðsherrum sem hafa stutt Bandaríkin og hjálpuðu til við að velta Talibönum úr sessi í innrás Bandaríkjanna í kjölfar árásarinnar á Tvíburaturnana 2001.
AP fréttaveitan hefur eftir embættismanni í norðurhluta landsins að til fárra bardaga hafi komið og hermenn hafi að mestu flúið undan sókn Talibana. Þeir hafi yfirgefið stöður sína og sagði viðkomandi að andrúmsloftið meðal hermanna væri mjög þrungið.
Sjá einnig: Afganski herinn sagður í slæmu ástandi og óundirbúinn fyrir væntanleg átök
AP segir Talibana hafa náð tökum á um þriðjungi héraða landsins. Sérstaklega á landamærum Afganistan og annarra ríkja í Mið-Asíu.