Íbúðafélagið Bjarg hefur gert langtímasamning við Húsnæðis-og mannvirkjastofnun um ný lán til að fjármagna uppbyggingu á þúsund nýjum íbúðum og fimm hundruð íbúðum sem þegar hafa verið byggðar.
Skrifað var undir samning þess efnis milli íbúðafélagsins Bjargs, Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar og Félagsmálaráðuneytisins í morgun.

Björn Traustason framkvæmdastjóri félagsins segir að með nýjum samningi sé hægt að lækka leigu.
„Þetta er samningur sem hleypur á milljörðum, hann gerir okkur kleift að hefja stórar framkvæmdir og hefur áhrif á það sem við höfum þegar byggt. Þar sem um er að ræða mun hagkvæmari lán en við höfum haft getum við lækkað leigu hjá öllum leigutökum. Bjarg er óhagnaðardrifið íbúðafélag þannig að við skilum öllu því hagræði sem við fáum í rekstri til leigutaka. Þannig getur leiga lækkað um allt að fjörutíu þúsund krónur á íbúð þ.e. þar sem um er að ræða stærstu íbúðirnar,“ segir Björn.
Gerir ekki ráð fyrir hækkun á næstu árum
Björn segir að ekki sé gert ráð fyrir hækkun á leigu á næstu árum.
„Vextirnir á þessum nýju lánum sem við fengum eru fastir í tíu ár. Það þýðir að við erum búin að festa leiguverðið í tíu ár nema fasteignagjöld og annað hækki á tímabilinu,“ segir Björn.
Bjarg hefur hefur þegar lækkað leigu hjá 124 leigutökum að Móavegi 2-12 og ætlar að lækka leigu hjá hundruðum annarra þann 1. september.
Samvkæmt upplýsingum fréttastofu lækkar mánaðargreiðsla á 2 herbergja íbúð um tæpar sextán þúsund krónur á mánuði, þriggja herbergja um rúmar 22 þúsund krónur og um tæpar 25 þúsund krónur á 4 herbergja íbúð hjá félaginu.
Skora á önnur leigufélög að deila ávinningi með leigutökum
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir aðspurður að þetta setji þrýsting á önnur leigufélög að lækka leigu.
„Tvímælalaust mun það gera það. Þetta er í fyrsta sinn sem við látum lægri vexti renna beint til leigjenda. Það gerist með félögum eins og Bjargi sem tryggja að allur hagnaður rennur beint til leigutakans en ekki leigusalans,“ segir Ásmundur.
Ragnar Þór Ingólfsson varaformaður Bjargs hvetur önnur íbúða-og eða leigufélög til að lækka leigu.
„Ég skora á stór leigufélög eins og Ölmu og Heimavelli að skila ávinningnum af vaxtalækkunum sem hafa verið í gangi til leigutaka sinna. Félögin hafa flest verið að endurfjármagna til að fá lægri vexti og þau eiga skila ávinningnum af því til leigutaka líka,“ segir Ragnar.