Fótbolti

Harð­stjórinn hættur eftir að­eins sjö vikur hjá Ís­lendinga­liði Esb­jerg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hyballa á æfingu hjá Esbjerg.
Hyballa á æfingu hjá Esbjerg. Esbjerg

Hinn þýski Peter Hyballa hefur látið af störfum sem þjálfari danska knattspyrnuliðsins Esbjerg. Hann tók við eftir að Ólafur Kristjánsson var látinn fara en entist aðeins sjö vikur. 

Ólafur Kristjánsson stýrði Esbjerg á síðustu leiktíð en var látinn fara er ljóst var að félagið kæmist ekki upp í dönsku úrvalsdeildina. Peter Hyballa kom í hans stað og átti að stýra þeim Andra Rúnari Bjarnasyni og Ísaki Óla Ólafssyni upp í efstu deild. Hann entist aðeins í sjö vikur en tókst samt sem áður á þeim tíma að kveikja marga elda.

Aðferðir Hyballa voru harkalegar gagnrýndar og vildu leikmenn liðsins losna við hann sökum þeirra. Leikmannsamtök Danmerkur voru komin í málið og leikmenn skrifuðu nafn sitt á undirskriftarlista þar sem stjórn félagsins var beðin um láta Hyballa taka poka sinn.

Félagið neitaði að láta Hyballa fara svo hann tók málin í eigin hendur. Hann ku hafa sagt upp störfum í dag og Esbjerg er því enn á ný í þjálfaraleit.

Hollendingurinn Rafael van der Vaart var í gær ráðinn aðstoðarþjálfari félagsins. Hvort hann muni taka við liðinu á eftir að koma í ljós. Hinn 38 ára gamli Van der Vaart lék á sínum tíma 109 landsleiki fyrir Holland ásamt því að spila fyrir stórlið á borð við Real Madrid og Tottenham Hotspur. Hann spilaði þrjá leiki með Esbjerg áður en hann lagði skóna á hilluna 2018.

Þegar þremur leikjum er lokið í dönsku B-deildinni er Esbjerg í 11. sæti af 12 liðum með eitt stig að loknum þremur leikjum. Liðið hefur skorað tvö mörk en fengið á sig níu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×