Réttarhöld yfir R. Kelly hófust í New York í Bandaríkjunum síðasta fimmtudag. Hann er meðal annars sakaður um að hafa brotið kynferðislega á fjölda kvenna og stúlkna undir lögaldri.
Demetrius Smith, fyrrverandi tónleikaskipuleggjandi söngvarans, var yfirheyrður sem vitni í réttarsal í dag. Þar var samband Kellys og söngkonunnar Aaliyah til umfjöllunar. Aaliyah skaust hratt upp á stjörnuhimininn og var orðin stórstjarna þegar hún lést í flugslysi aðeins 22 ára gömul árið 2001.
Smith greindi frá því hvernig Kelly kynntist Aaliyah þegar hún var fimmtán ára og hvernig hann hjálpaði henni með tónlistina. Fljótlega hafi hann þó farið að hafa áhyggjur af því að þau væru orðin aðeins of náin en þarna var Kelly 27 ára gamall.
Kelly hafi svo einn dag sagt honum að stúlkan væri í vandræðum því hún teldi að hún væri orðin ólétt. Hann var þá hræddur um að lenda í fangelsi fyrir að hafa barnað stúlku undir lögaldri.
Smith sagðist þá farið með Aaliyah til að sækja um skilríki fyrir hana og mútað opinberum starfsmanni svo hún væri skráð sem átján ára kona á pappírunum. Hann segir það hafa kostað sig 500 dollara, eða um 65 þúsund krónur á genginu í dag.
Þau Kelly hafi síðan farið og gift sig en hjónabandið hafi verið gert ógilt ári síðar eftir að fjölskylda stúlkunnar komst á snoðir um það.
Smith gerði dómaranum það oft ljóst að hann kærði sig ekkert um að bera vitnisburð í málinu. Hann sagði þó söguna og svaraði spurningum sækjanda málsins. Dómari hafði áður samþykkt að Smith yrði ekki dæmdur eða látinn bera ábyrgð á þeim brotum sem hann viðurkenndi sjálfur í vitnisburði sínum í málinu samkvæmt frétt CNN.