Mark Hålands ekki nóg gegn Hollandi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Håland er klár í slaginn.
Håland er klár í slaginn. Fran Santiago/Getty Images

Fyrir leik kvöldsins voru bæði lið með sex stig í G-riðli, stigi á eftir toppliði Tyrklands. Tvö efstu lið riðilsins komast áfram og þurftu því bæði á sigri að halda.

Louis van Gaal var að stýra Hollandi í fyrsta sinn en hann tók við Frank de Boer eftir slakt gengi þeirra hollensku á EM í sumar. Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool, var að spila sinn fyrsta leik fyrir Holland frá því á síðasta ári.

Hans verkefni var að eiga við ungstirnið Erling Braut Håland en sá norski skoraði fyrsta mark leiksins er hann kom Noregi í forystu á 20. mínútu eftir stoðsendingu Stefans Strandberg. Átta mínútum fyrir leikhlé jafnaði Davy Klaassen, leikmaður Ajax, hins vegar metin fyrir Holland eftir stoðsendingu frá Georginio Wijnaldum.

1-1 stóð í hléi og raunar allt til loka. Håland skaut í stöng úr góðu færi á 64. mínútu og þá fékk Denzel Dumfries gott færi til að tryggja Hollandi sigur á lokasekúndum en hitti boltann illa á markteig.

Mikilvægt jöfnunarmark Svartfellinga

Í öðrum leikjum í G-riðli skildu Tyrkland og Svartfjallaland jöfn 2-2 og Lettland vann 3-1 sigur á Gíbraltar í botnslag.

Cengiz Under og Yusuf Yasici skoruðu mörk Tyrkja sem komust 2-0 yfir en Adam Marusic, leikmaður Lazio, skoraði fyrir Svartfellinga áður en Risto Radunovic jafnaði undir lok leiks.

Spennan er því mikil í riðlinum. Tyrkland er efst með átta stig, en Noregur, Holland og Svartfjallaland koma þar á eftir, öll með sjö stig.

Lettar eru með fjögur stig og Gíbraltar rekur lestina án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira