Fótbolti

Sancho ekki með enska lands­liðinu í kvöld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verður ekki með í kvöld.
Verður ekki með í kvöld. Eddie Keogh/Getty Images

Jadon Sancho, vængmaður Manchester United, verður ekki í leikmannahópi Englands er liðið mætir Ungverjum á Puskás-leikvanginum í Búdapest. 

England heimsækir Ungverjaland í undankeppni HM 2022 sem fram fer í Katar í kvöld. Um er að ræða toppslag en lærisveinar Gareth Southgate eru með fullt hús stiga að loknum þremur leikjum á meðan heimamenn eru með sjö stig. 

Enska liðið hefur ákveðið að krjúpa fyrir leikinn til að sýna samstöðu gegn óréttlæti og kynþáttafordómum. 

Byrjunarlið Englands á enn eftir að koma í ljós en það er nær öruggt að ekki verða öll sátt með ákvörðun Southgate. Það er þó ljóst að Jadon Sancho verður hvorki í byrjunarliðinu né á bekknum þar sem hann fékk högg á æfingu liðsins í gær.

Hann mun ekki taka þátt í leik kvöldsins en gæti náð að jafna sig af meiðslunum áður en England mætir Andorra á Wembley í Lundúnum þann 5. september eða Póllandi ytra þann 8. september.

Leikur Englands og Ungverjalands hefst klukkan 18.45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Útsending hefst tíu mínútum fyrr eða 18.35.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×