Birkir Már hóf leikinn í hægri bakverði og Birkir Bjarnason var á miðri miðjunni. Þeir hafa báðir átt betri leiki þó svo að þeir hafi verið manna skástir á Laugardalsvelli í leik sem bauð ekki upp á mikið.
Fari svo að nafnarnir spili gegn Norður-Makedóníu á sunnudag eða Þýskalandi á miðvikudag þá hafa þeir spilað 100 leiki fyrir íslenska A-landsliðið. Aðeins einn maður hefur náð þeim áfanga að svo stöddu en það er Rúnar Kristinsson, þjálfari KR í Pepsi Max deild karla.
Rúnar lék á sínum tíma 104 leiki fyrir íslenska landsliðið. Hans fyrsti leikur kom árið 1987 en sá síðasti 2004. Þá voru enn nokkur ár í að Birkir og Birkir myndu spila fyrir landsliðið.
Birkir Már lék sinn fyrsta leik um mitt ár 2007 er Ísland gerði 1-1 jafntefli við Liechtenstein á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2008.. Nafni hans Bjarnason lék sinn fyrsta leik um vorið 2010 er Ísland lagði Andorra 4-0 í vináttuleik.
Hvort þeir fái tækifæri til að jafna met Rúnars verður að koma í ljós en Birkir Már er orðinn 36 ára gamall á meðan Birkir Bjarnason er 33 ára.