Erlent

Ný lög um þungunar­rof versta tegund kyn­bundinnar mis­mununar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nýjum lögum mótmælt fyrir utan þinghúsið í Austin.
Nýjum lögum mótmælt fyrir utan þinghúsið í Austin. AP/Austin American-Statesman/Jay Janner

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna á sviðið mannréttinda- og jafnréttismála fordæma harðlega ný lög um þungunarrof í Texas í Bandaríkjunum og segja þau meðal annars fela í sér verstu tegund kynbundinnar mismununar.

Melissa Upreti, sem fer fyrir starfshóp SÞ um mismunun gegn konum og stúlkum varar við því að lagasetningin, sem bannar þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngu, muni gera það að verkum að þau verða framkvæmd úr augsýn og við óöruggar aðstæður.

„Þessi nýju lög gera þungunarrof óörugg og banvæn og skapa nýja áhættu fyrir konur og stúlkur. Þau fela í sér gríðarlega mismunun og brjóta gegn fjölda réttinda sem eru tryggð í alþjóðalögum,“ segir hún.

Þá hefur hún gagnrýnt Hæstarétt Bandaríkjanna harðlega fyrir að grípa ekki inn í og koma í veg fyrir að lögin tækju gildi en sú ákvörðun hefði ekki aðeins orðið til þess að yfirvöld í Texas hefðu tekið skref afturábak, heldur hefðu Bandaríkin öll farið aftur í tímann í augum heimsbyggðarinnar.

Reem Alsalem, sem er sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum er varða ofbeldi gegn konum, segir Hæstarétt hafa ákveðið kasta yfirráðum kvenna yfir eigin líkama fyrir róða og þannig opnað á ofbeldi gegn konum og þeim sem framkvæma þungunarrof.

Hún bendir á að ákvörðunin muni hafa mest áhrif á konur sem tilheyra minnihlutahópum og búa við fátækt en viðbúið er að nú muni konur sem búa í Texas þurfa að ferðast til annarra ríkja til að sækja þjónustuna.

Þá ber að geta þess að lagasetningin í Texas hefur orðið til þess að löggjafinn í að minnsta kosti sex öðrum ríkjum horfir nú til þess að takmarka aðgengi kvenna að þungunarrofi með svipuðum hætti.

Lögin hafa gjarnan verið kölluð „hjartsláttarlöggjöf“ af andstæðingum þungunarrofs en vísindamenn hafa bent á að það sé í raun rangnefni, þar sem sá „hjartsláttur“ sem finnist við sex vikur sé aðeins vefur sem sé að byrja að verða að hjarta.

Margar ef ekki flestar konur verða ekki meðvitaðar um að þær séu óléttar fyrr en seinna á meðgöngunni og talið er að bannið muni fækka þungunarrofsaðgerðum um allt að 90 prósent.

Engar undanþágur eru veittar þótt þungunin sé afleiðing naugðunar eða sifjaspells.

Gagnrýnendur segja að með lögunum sé horft framhjá fordæminu sem Hæstiréttur setti með niðurstöðu sinni í málinu sem kallað er Roe gegn Wade, en hann tryggði öllum bandarískum konum réttinn til þungunarrofs allt þar til fóstrið væri orðið að barni sem gæti lifað utan líkama móðurinnar.

Þá hefur verið harðlega gagnrýnt að það verður ekki undir opinberum aðilum að fylgja lögunum eftir, heldur leggja þau það á almenna borgara að tilkynna um ólögmæt þungunarrof, gegn peningaverðlaunum og greiðslu málskostnaðar ef málið vinnst fyrir dómstólum.


Tengdar fréttir

Fleiri ríki vilja nýta sér smuguna sem Texas fann

Að minnsta kosti sex ríki Bandaríkjanna þar sem repúblikanar fara með völdin íhuga nú að leggja fram frumvörp um bann við þungunarrofi sem eru sambærileg við umdeild lög í Texas sem Hæstiréttur Bandaríkjanna leyfði að taka gildi.

Telja rétt kvenna til þungunarrofs afnuminn í skjóli nætur

Ákvörðun íhaldssamra dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna um að fella ekki úr gildi lög í Texas sem banna þungunarrof nær undantekningarlaust þrátt fyrir að þau virðist stangast á við dómafordæmi sætir harðri gagnrýni. Dómararnir eru sakaðir um að afnema grundvallarrétt kvenna í skjóli nætur.

Hæstiréttur neitar að fella „hjartsláttarlöggjöfina“ úr gildi

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur hafnað því að fella úr gildi ný lög í Texas sem banna þungunarrof í nær öllum tilfellum. Lögin tóku gildi í gær og kröfðust þá fjöldi samtaka sem berjast fyrir rétti kvenna til þungunarrofs þess að Hæstiréttur landsins myndi fella þau úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×