Minnst fimm hundruð nemendur segja að þeim hafi verið neituð innganga í Bandaríkin vegna þessa. Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar kvarta nemendurnir yfir því að Bandaríkjamenn beiti reglunum of frjálslega og segjast reiðir yfir ásökunum um njósnir.
Reglurnar sem um ræðir snúa að því að meina fólki sem talið er tengjast Kommúnistaflokk Kína, herafla Kína eða háskólum sem bendlaðir hafa verið við herinn inngöngu í Bandaríkin.
Sjá einnig: Enn einn fyrrverandi starfsmaður CIA ákærður fyrir njósnir
Sendiráð Bandaríkjanna í Kína segir reglunum ekki beitt í ógáti. Þær séu nauðsynlegar til að verja hagsmuni Bandaríkjanna og hafi verið settar á í kjölfar þess að vegabréfsáritanir vegna náms hafi verið misnotaðar.
Þá segir ráðuneytið að á undanförnum fjórum mánuðum hafi rúmlega 85 þúsund kínverskir námsmenn fengið vegabréfsáritun.
Bandaríkjamenn hafa á undanförnum árum sakað Kínverja um umfangsmiklar njósnir þar í landi. Fyrr á þessu ári sagði Christopher Wray, yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna, að stofnunin opnaði nýja rannsókn sem sneri að meintum njósnum Kínverja á um tíu klukkustunda fresti.
Embættismenn segja að talið sé að þúsundir kínverskra námsmanna og vísindamanna taki þátt í tilteknum verkefnum yfirvalda í Kína, þar sem þeir séu hvattir til að stela alls konar leyndarmálum og koma þeim til Kína.
Þá segja Bandaríkjamenn að Kommúnistaflokkur Kína noti meint einkafyrirtæki og háskóla í hernaðarlegum tilgangi og til að koma höndum yfir hernaðarleyndarmál og tækni.
Samhliða þessari þróun hefur spenna milli ríkjanna aukist verulega. Meðal annars vegna ólöglegs tilkalls Kína til nánast alls Suður-Kínahafs, kórónuveirunnar, Taívans og annarra málefna.