Vísir hefur sett sig í samband við fjölda aðila sem hafa verið orðaðir við framboð og enginn þeirra segist ætla að bjóða sig fram. Þetta eru meðal annars Jón Rúnar Halldórsson, Guðrún Inga Sívertsen, Börkur Edvardsson, Pétur Hafliði Marteinsson og Björn Berg Gunnarsson.
Það gæti síðan reynst þrautin þyngri hjá Knattspyrnusambandinu að manna nýja stjórn. Það þarf 12 manns í stjórn en innan við fimm aðilar hafa þegar boðið sig fram.
Ef ekki tekst að manna stjórn KSÍ verður framboðsfrestur að öllum líkindum lengdur að því er Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar, segir. Þingið sjálft fer fram þann 2. október.
Þeir sem hafa hug á að bjóða sig fram í stjórn eða formann þurfa skrifleg meðmæli frá félögum sem hafa á bak við sig að minnsta kosti tólf atkvæði á þinginu.
Kjörnefnd mun fara yfir allar umsóknir næstkomandi mánudag og síðan tilkynna hverjir skiluðu inn löglegu framboði.