Elías hefur haldið marki Midtjylland hreinu í fyrstu fimm deildarleikjum sínum fyrir félagið og var valinn leikmaður septembermánaðar í dönsku úrvalsdeildinni. Síðustu vikur hafa því verið ævintýri líkastar hjá þessum 21 árs gamla fyrrverandi landsliðsmanni í blaki.
„Maður heldur sér bara niðri á jörðinni og er auðmjúkur í öllu. En þetta er búinn að vera alvöru mánuður og það er gaman að því. Ég get ekki kvartað yfir neinu. Þetta hefur verið draumi líkast,“ segir Elías.
Líkt og í landsliðinu þarf hann að hafa mikið fyrir því að fá að byrja leikina hjá Midtjylland nú þegar Jonas Lössl, varamarkvörður danska landsliðsins og fyrrverandi leikmaður Everton og Huddersfield, er klár í slaginn á ný eftir meiðsli.
„Þetta er að sjálfsögðu þannig að honum finnst hann vera bestur og mér finnst ég vera bestur. Við erum bara í góðri samkeppni, sem er mjög hollt. Þetta verður bara að koma í ljós á næstu vikum,“ segir Elías.
Klár í að mæta Armeníu
Elías var annar tveggja leikmanna Íslands á blaðamannafundi í gær en sagðist þá ekki hafa fengið nein skilaboð um að hann yrði aðalmarkvörður liðsins gegn Armeníu.
„Nei, ekki enn þá. Það er náttúrulega undir Adda og Eiði [Arnari Þór Viðarssyni og Eiði Smára Guðjohnsen] komið hvernig byrjunarliðinu verður stillt upp. Þetta er bara í fyrsta sinn sem ég er í A-landsliðshóp í keppnisleik. Maður er bara þolinmóður. Ef kallið kemur er ég auðvitað klár en svo erum við með flotta markmenn í Patta og Rúnari. Þetta er bara val sem að þjálfararnir þurfa að taka,“ segir Elías.
Hann varði mark U21-landsliðsins í síðasta mánuði en er kominn í A-landsliðið eftir að Hannes Þór Halldórsson lagði landsliðstreyjuna á hilluna. Rúnar Alex Rúnarsson stóð í marki Íslands í tveimur leikjum í síðasta landsleikjaglugga. Patrik Sigurður Gunnarsson er þriðji markvörðurinn í hópnum núna en hann hafði betur í baráttunni við Elías um sæti í byrjunarliði U21-landsliðsins sem lék í lokakeppni EM í vor.
„Við erum allir góðir vinir og það er bara hollt að hafa samkeppni um stöður. Það er bara gaman að vinna með þessum strákum,“ sagði Elías.
Ísland mætir Armeníu á morgun, föstudag, klukkan 18:45 og svo Liechtenstein á mánudag á sama tíma. Báðir leikirnir eru á Laugardalsvelli.