Fótbolti

Abra­ham fær traustið gegn Andorra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tammy á æfingu með enska landsliðinu.
Tammy á æfingu með enska landsliðinu. Eddie Keogh/Getty Images

Tammy Abraham fær traustið hjá Gareth Southgate í kvöld og mun byrja leik Englands gegn Andorra í undankeppni HM 2022 í kvöld. Sky Sports greindi frá þessu fyrr í dag.

Hinn 24 ára gamli Abraham hefur byrjað lífið á Ítalíu nokkuð vel undir stjórn José Mourinho hjá Roma. Hann hefur skorað fjögur mörk í 10 leikjum til þessa og virðist vera njóta lífsins í Rómarborg.

Hann kostaði lærisveina Mourinho 34 milljónir punda í sumar og stefnir í að hann leiði framlínu Englands gegn Andorra í kvöld. Það yrði fyrstu leikur hans fyrir England síðan liðið spilaði gegn Íslandi fyrir 11 mánuðum síðan.

Abraham var í lykilhlutverki hjá Chelsea er Frank Lampard þjálfaði liðið. Eftir að Thomas Tuchel tók við í febrúar fækkaði tækifærum Abraham verulega og var hann á endanum seldur í sumar.

Í frétt Sky Sports kemur fram að Kieran Trippier verði fyrirliði Englands þannig það má reikna með að bæði Jordan Henderson og Harry Kane verði báðir á varamannabekk Englands.

England og Andorra mætast í Andorra klukkan 18.45 í kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×