Fótbolti

„Verða að fá að velja það sjálfir hvort að þeir syngi, syngi inni í sér, eða sleppi því“

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Bjarnason er fyrirliði Íslands í þessum landsleikjaglugga.
Birkir Bjarnason er fyrirliði Íslands í þessum landsleikjaglugga. Vísir/Jónína Guðbjörg

Birkir Bjarnason segir að ekki sé hægt að saka endurnýjað og gjörbreytt landslið Íslands í fótbolta um stemnings- eða andleysi. Það sé ekki ástæðan fyrir 1-1 jafnteflinu við Armeníu á föstudag.

Birkir spilar vafalítið sinn 103. A-landsleik í kvöld þegar Ísland mætir Liechtenstein og mun þá aðeins vanta einn leik til að jafna leikjamet Rúnars Kristinssonar. Met sem hann gæti mögulega bætt í nóvember.

Í þeim 102 landsleikjum sem hann hefur spilað fyrir Ísland hefur Birkir ekki vanið sig á að syngja með þjóðsöngnum fyrir leik. Það virtist fara fyrir brjóstið á einhverjum hve undirtektir leikmanna voru dræmar þegar þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leikinn við Armena, og það jafnvel talið til marks um ákveðið andleysi. 

Birkir vísar þessu til föðurhúsanna.

„Mér finnst við vera með ótrúlega spennandi hóp og mjög marga, mjög efnilega og flotta karaktera í þessum hópi. Ég held að það sé enginn í þessum hópi sem ætti að vera sakaður um slíkt,“ sagði Birkir um meint andleysi. Viðtal við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Birkir um þjóðsönginn og andann í íslenska liðinu

Eins og fyrr segir þá er það ekkert nýtt hjá Birki, sem erfitt væri að saka um skort á baráttuanda í bláu treyjunni, að hann syngi ekki með þjóðsöngnum.

„Nei, ég hef nú yfirleitt ekki gert það. Ég hef nokkrum sinnum gert það inni í hausnum á mér. Menn verða að fá að velja það sjálfir hvort að þeir syngi, syngi inni í sér, eða sleppi því. Það er ekki nein regla sem segir að maður þurfi eða þurfi ekki að gera hluti. Það má hver hafa sína skoðun en menn verða að fá að ákveða þetta sjálfir,“ sagði Birkir í viðtali eftir blaðamannafund í gær.

Leikur Íslands og Liechtenstein er á Laugardalsvelli og hefst klukkan 18:45 í kvöld. Um er að ræða síðasta heimaleik Íslands á þessu ári og í undankeppni HM í Katar en liðið lýkur svo undankeppninni með tveimur útileikjum í nóvember.


Tengdar fréttir

Þunnskipaður hópur gegn Liechtenstein í kvöld

Ofan á mikil forföll fyrir leiki íslenska karlalandsliðsins í fótbolta nú í október hafa nú bæst leikbönn og frekari forföll eftir 1-1 jafnteflið við Armeníu á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×