Innlent

Sjálf­stæðis­flokkurinn bauð Ernu vel­komna í flokkinn á laugar­dag

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Erna segir þessa kveðju Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún er boðin velkomin í flokkinn, vera byggða á misskilningi.
Erna segir þessa kveðju Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún er boðin velkomin í flokkinn, vera byggða á misskilningi. Vísir

Sjálfstæðisflokkurinn tilkynnti á laugardag að Erna Bjarnadóttir, varaþingmaður Birgis Þórarinssonar og Miðflokkskona, hafi ákveðið að fylgja Birgi yfir í Sjálfstæðisflokkinn og starfa innan þingflokks hans. Erna tilkynnti hins vegar í morgun að hún muni ekki fylgja Birgi eftir, heldur halda til í Miðflokknum.

„Erna Bjarnadóttir, varaþingmaður Birgis, hefur einnig ákveðið að starfa innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins í störfum sínum á Alþingi,“ stendur í tilkynningu á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins og í Facebook-deilingu tilkynningarinnar á síðu Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Tilkynningu Sjálfstæðisflokksins hefur nú verið breytt á heimasíðunni xd.is en hægt er að sjá upphaflegu færsluna í myndinni hér að ofan. 

Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi bauð Birgi og Ernu velkomin í flokkinn á laugardag. Erna hefur þó ekki gengið til liðs við flokkinn.Vísir

Birgir tilkynnti það á laugardaginn að hann hafi gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og ýjaði að því að Erna myndi fylgja honum eftir. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið á laugardag að hann hafi rætt vistaskiptin við Ernu, varaþingmann sinn, og hún hafi stutt hann í ákvörðun sinni.

Ekkert náðist í Ernu vegna málsins alla helgina og ekki í gær heldur. Það var ekki fyrr en í morgun sem Erna mætti í viðtal um vistaskiptin í Bítinu á Bylgjunni. Þar tilkynnti hún að hún ætli ekki að fylgja Birgi yfir í Sjálfstæðisflokkinn.

„Ég hef ekki skráð mig í Sjálfstæðisflokkinn og er ekki á leiðinni þangað,“ sagði Erna í morgun.

Í samtali við fréttastofu segir Erna þessa kveðju Sjálfstæðisflokksins byggða á einhverjum misskilningi. Sá misskilningur hljóti að koma frá Birgi, sem hljóti að hafa mistúlkað orð hennar. 

„Hann hlýtur að koma frá Birgi. Það voru samtöl, fólk talar saman og fólk metur sína stöðu og finnur þegar storminn lægir hver ég er. Ég verð að vera sú sem ég er og ég ætla að fara í mína vinnu, ég ætla að hugsa um mína fjölskyldu. Annað hefur sinn gang. Annað eins hefur nú breyst á nokkrum dögum.“

Í viðtali í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun svaraði Birgir tilkynningu Ernu og sagði það hljóta að vera að Erna hafi skipt um skoðun með að fylgja honum vegna umræðunnar sem hafi skapast.

„Hún tjáði mér það að hún ætlaði að koma með mér yfir. Hún hefur greinilega skipt um skoðun og ég held að það sé partur af þeirri hörðu umræðu sem hefur verið í samfélaginu og haft mikil áhrif á hana,“ sagði Birgir í morgun og RÚV greinir frá. 


Tengdar fréttir

Erna fylgir Birgi ekki í Sjálfstæðisflokkinn

Erna Bjarnadóttir ætlar ekki að fylgja Birgi Þórarinssyni og verða varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu. Birgir gaf í skyn yfirlýsingu um helgina að Erna ætlaði að fylgja honum úr Miðflokknum til Sjálfstæðisflokksins

Birgir truflar ekki stjórnarmyndunarviðræður

Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna taka fyrir að vistaskipti Birgis Þórarinssonar yfir í Sjálfstæðisflokk hafi áhrif á yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir litla umræðu hafa átt sér stað innan þingflokksins áður en ákvörðun var tekin.

Ekki nýtt að ólíkir persónuleikar séu í þingliði Sjálfstæðisflokksins

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist sannfærður um að Birgir Þórarinsson geti lagt þingflokki hans lið þrátt fyrir ýmsar umdeildar skoðanir. Birgir hljóti að telja sig geta rúmast innan Sjálfstæðisflokksins í ljósi þess að hann skipti yfir í flokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×