Markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson hélt sæti sínu í byrjunarliði Elfsborg og hélt marki sínu hreinu þar sem liðið vann þægilegan 3-0 sigur á Djurgården. Í hinum leik Allsvenskan í kvöld vann Häcken 5-0 stórsigur á Norrköping.
Ari Freyr Skúlason lék allan leikinn í liði Norrköping og nældi sér í gult spjald á 84. mínútu leiksins. Valgeir Lunddal Friðriksson sat allan tímann á varamannabekk Häcken en Óskar Sverrisson kom inn af bekknum í uppbótartíma.
Sigur Elfsborg kemur liðinu almennilega inn í toppbaráttu deildarinnar en liðið er nú með 42 stig, aðeins tveimur minna en Malmö, Djurgården og AIK sem eru jöfn á toppnum með 44 stig. Nörrköping er í 5. sæti með 39 stig á meðan Häcken er í 8. sæti með 31 stig.
Alex Þór Hauksson skoraði sitt annað mark fyrir Öster í kvöld. Alex Þór tók skot af löngu færi sem fór í varnarmann og þaðan yfir markvörð Vasalunds. Reyndist það sigurmark liðsins í 3-2 sigri.
Hauksson! Öster har vänt till 3-2 pic.twitter.com/krFVffZ2aC
— discovery+ sport (@dplus_sportSE) October 18, 2021
Öster er því nú í 7. sæti með 35 stig.