Fótbolti

Búrkína Fasó komið upp fyrir Ísland á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Jóhann Helgason liggur í jörðinni eftir að hafa verið felldur í síðasta leik íslenska landsliðsins á móti Liechtenstein.
Þórir Jóhann Helgason liggur í jörðinni eftir að hafa verið felldur í síðasta leik íslenska landsliðsins á móti Liechtenstein. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu fellur niður um tvö sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins sem var birtur í morgun.

Ísland er nú í 62. sæti listans en íslenska liðið var í átjánda sæti fyrir þremur árum og hefur alls fallið niður um sextán sæti á þessu ári.

Íslenska liðið hóf þetta ár í 46. sæti, datt niður í 52. sæti í apríl, niður í 53. sæti í ágúst og hefur síðan fallið niður um níu sæti á síðustu tveimur listum. Ísland var í 53. sæti á listanum fyrir ágúst.

Einn sigur í fimm heimaleikjum í haust var ekki að hjálpa íslensku strákunum í baráttunni fyrir sætum á listanum. Næst á dagskrá eru útileiki í nóvember á móti Norður Makedóníu og Rúmeníu en það eru lokaleikir íslenska liðsins í undankeppni HM 2022.

Afríkuþjóðirnar Malí og Búrkína Fasó hoppuðu sem dæmi bæði upp fyrir Ísland á nýja listanum. Búrkína Fasó er í harðri baráttu vuið Alsír um að komast áfram upp úr riðlinum og í þriðju umferð í baráttu um afrísku sætin á HM í Katar en Malí er í efsta sæti í sínum riðli.

Belgar og Brasilíumenn halda tveimur efstu sætunum en enska landsliðið dettur niður um tvö sæti, fer úr þriðja sæti niður í það fimmta.

Frakkar tryggðu sér Þjóðadeildartitilinn á dögunum og komast upp í þriðja sætið og Evrópumeistarar Ítalíu fara líka upp fyrir Englendinga.

Hér fyrir neðan má sjá listann sem spænski tölfræðingurinn Alexis Martín-Tamayo var búinn að reikna út í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×